Sunnudagur, 17. Febrúar 2019
Að vera þátttakandi er stærsti sigurinn
ifr@ifr.is
561 8226
Hátúni 14, 105 Rvk
Opnun Nýbyggingar
Hátúni 14
Sími: 5618226
ifr@ifr.is
- Saga Hússins
- Starfsmenn
- Opnun Nýbyggingar
- Lög félagsins
- Stjórn og nefndir
- Jafnréttisstefna
- Siðareglur

Þegar draumar verða að veruleika


Byggingarsaga íþróttahúss Íþróttafélags fatlaðra í Reykjavík.

Opnun nýbyggingar Laugardaginn 28. mars 2009 Ræða fomanns bygginganefndar ÍFR

Forseti Íslands Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, Menntamálaráðherra Katrín Jakobsdóttir, Borgarstjórinn í Reykjavík Hanna Birna Kristjánsdóttir. Ágætu gestir.
Íþróttafélag fatlaðra í Reykjavík var stofnað 30. maí 1974 að frumkvæði Íþróttasambands Íslands, Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra og Öryrkjabandalags Íslands. Félagið fékk fyrst aðstöðu til æfinga í Sjálfsbjargarhúsinu, en sú aðstaða var síðan tekin undir sjúkraþjálfun.

Um 1980 hafði starfsemi félagsins vaxið það mikið að æfingar voru vítt og breitt um borgina s.s. í Sjálfsbjargarhúsinu, Íþróttahúsi Hlíðarskóla, Árseli og Baldurshaga á Laugardalsvelli. Aðgengi að mörgum þessara staða var mjög ábótavant fyrir hreyfihamlaða. Hófst þá umræða í stjórn félagsins um hvort ekki væri tímabært að félagið eignaðist eigið íþróttahús. Fólk leyfði sér að dreyma.

Strax var farið að kanna málið með viðræðum við embættismenn hjá Reykjavíkurborg og Menntamálaráðuneytinu. Svör flestra þeirra voru á einn veg þ.e.a.s. að engin þörf væri fyrir slíkt íþróttahús, félagið gæti aldrei staðið undir rekstri þess og að auki gæti félagið aldrei greitt sinn hlut í byggingarkostnaði. Þá voru lög um byggingu íþróttamannvirkja þannig að sveitarfélög og ríki borguðu hvort um sig 40% og íþróttafélögin sjálf 20% af byggingarkostnaði.

Þrátt fyrir þetta byrjaði félagið að leggja allt það fé sem því áskotnaðist og ekki þurfti til rekstrar, í byggingasjóð. Árið 1983 var síðan skipuð byggingarnefnd undir formennsku Sigurðar Magnússonar en auk hans voru í nefndinni Vigfús Gunnarsson og Trausti Sigurlaugsson sem báðir eru látnir. Nefndinni tókst að fá styrk frá Reykjavíkurborg en það fjármagn og byggingasjóðurinn dugði til að ljúka við grunn að íþróttahúsi árið 1985.

Þá stöðvuðust framkvæmdir alveg vegna fjárskorts og margir urðu úrkula vonar um að ekki yrði af frekari framkvæmdum. Svo rammt var það að ýmsir fóru að tala um að best væri að reyna að selja grunninn.

Í lok árs 1986 var svo skipuð ný bygginganefnd. Fengum við til liðs við okkur valinkunna athafnamenn úr Lions- og Kiwanishreyfingunum. Má þar m.a. nefna Svavar Gests, hljómlistamann og tónlistaútgefanda,  Jón Sigurðsson sem kenndur var við Straumnes sem síðar varð formaður félagsins, Ásgeir B. Guðlaugsson, kenndur við Timburverslun Árna Jónssonar sem varð svo fyrsti framkvæmdastjóri íþróttahússins, Samúel Jón Samúelsson endurskoðanda og Geir Björgvinsson bifreiðastjóra. Þeir eru allir látnir. Auk þeirra voru í nefndinni Magnús Sigtryggsson og Pétur Árnason sem eru látnir, einnig Arnór Pétursson sem var formaður, Guðni Þór Arnórsson, Jóhanna Stefánsdóttir og Júlíus Arnarsson.

Í fyrstu mættu nefndin sama viðhorfi og áður um að hvorki væri þörf fyrir íþróttahúsið eða félagið réði ekki við að reka það eða borga sinn hlut.
Þetta breyttist þegar Davíð Oddson þáverandi borgarstjóri og Ólafur Ragnar Grímsson þáverandi fjármálaráðherra samþykktu rök nefndarinnar og sáu að þörfin var ótvíræð.

Á árinu 1987 var gerður samningur við Teiknistofuna sf. undir forystu feðganna Gísla Halldórssonar og Leifs Gíslasonar og Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen (VST) undir forystu Níelsar Indriðasonar um hönnun íþróttahússins. Í framhaldi af því var svo gerður samningur við verktakafyrirtækið Ártak og Sigurð Reynisson, byggingameistara um byggingu hússins. Húsið var svo vígt 27. september 1990 og frú Vigdís Finnbogadóttir þáverandi forseti Íslands lagði hornstein að húsinu.

Um það leyti sem íþróttahúsið var tekið í notkun var gerður samningur við Endurhæfingarstöð Hjarta,- og lungnasjúklinga um samstarf og starfsemi stöðvarinnar í íþróttahúsinu. Það samstarf hefur verið með ágætum allan þennan tíma.

Allar þær mótbárur og hrakspár sem við höfðum átt við að glíma afsönnuðust fljótlega því tveim árum eftir að íþróttahúsið vara tekið í notkun borgaði félagið upp byggingalánið sem það þurfti að taka. Íþróttahúsið hefur aldrei verið rekið með halla eða þurft aðstoð vegna reksturs.


Um aldamótin var ljóst að svo þröngt var orðið um alla starfsemi í íþróttahúsinu að nauðsynlegt væri að stækka það. Sú þörf óx með ári hverju og ljóst varð að aðeins tvennt væri í stöðunni þ.e. að stækka húsið eða segja upp leigusamningi við HL -stöðina og vísa henni þar með út í óvissu með starfsemi sína.

Skipuð var ný byggingarnefnd 2005 í henni eru Arnór Pétursson, Garðar Steingrímsson, Júlíus Arnarsson og Þórður Ólafsson , sem þegar hófst handa við að kanna jarðveg fyrir stuðningi við stækkun. Frá því húsið var byggt hefur lögum verið breytt þannig að nú eru íþróttamannvirki alfarið á vegum sveitarfélaga og því í okkar tilviki hjá Reykjavíkurborg.

Þar sem stækkunin var ekki að öllu leiti vegna þarfa félagsins, því eins og fyrr sagði má segja að þarfir félagsins hefði mátt leysa að mestu með því að segja HL-stöðinni upp leigusamningi, töldu fulltrúar Reykjavíkurborgar það ekki vera í verkahring borgarinnar að standa straum af öllum kostnaði við stækkunina.
 
Skrifað var undir samning við Reykjavíkurborg 9. júní 2006 um að borgin mundi leggja félaginu til 75 milljónir á þrem árum þ.e.a.s. árunum 2007. 2008 og 2009. Var það áætlaður um helmingur byggingakostnaðar. Félagið þyrfti því að leita til ríkisvaldsins um að koma að málinu vegna eðlis þess og uppruna.

Nú hófst mikil og löng ganga við að kynna málið fyrir ráðherrum félags-, mennta-, og heilbrigðismála því í eðli sínu heyrði málið á einhvern hátt undir öll þessi ráðuneyti. Mér telst til að við höfum rætt við a.m.k. 8 ráðherra á rúmum tveim árum þ.m.t. aðstoðarmann forsætisráðherra. Hægt og bítandi opnuðust augu ráðamanna fyrir mikilvægi framkvæmdarinnar og ekki síst hvað þjóhagslega hagkvæmt væri að styðja stækkunina.

Félagsmálaráðherra samþykkti 2006 að veita 10 milljónir úr framkvæmdasjóði fatlaðra sem kom til útborgunar 2008. Það var svo fjárlaganefnd Alþingis sem á endanum tók af skarið og leysti málið með fjárveitingum.
Félagið fékk í  fjárlögum 2007 10 milljónir, á fjárlögum 2008 20 milljónir og í fjáraukalögum 2008 20 milljónir.

Félagði hefur einnig fengið styrki til tækjakaupa í nýja þreksalinn frá Minningasjóði Margrétar Björgúlfsdóttur 1.000.000,- kr . Bandalag Kvenna í Reykjavík 500.000,- kr. og Pokasjóði 700.000,- kr.

Hönnun viðbyggingarinnar hófst á árinu 2005 af verkfræðistofu Sigurðar Thorodssen (nú Verkís) og Tark teiknistofu h.f. Fljótlega kom svo verkfræðistofan Hönnun (nú Mannvit) að verkinu. r Skrifað var undir samning við SÞ Verktaka 29. febrúar 2008. Byggingameistari er Sigurður Þórðarson.

Nú er verkinu lokið og hefur það gengið vonum framar. Heildarkostnaður liggur ekki endanlega fyrir, en með þeim tækjakaupum sem þurfti að ráðast í, til að stækkað íþróttahúsið gæti sinnt sínu hlutverki að fullu, má ætla að heildarkostnaðurinn verði a.m.k. 140 til 150 milljónir.

Byggingarnefnd kann öllum þeim sem komið hafa að verkinu bestu þakkir fyrir vel unnin störf svo og öllum þeim sem lagt hafa málinu lið á einn eða annan hátt. Sem og þeim sem stutt hafa verkið s.s. með fjárframlögum og öðrum stuðningi.

Fyrstu hugmyndir af byggingu íþróttahússins voru um mun stærra hús en leyfi fékkst til að byggja. Ef þær hugmyndir hefðu verið samþykktar hefði ekki þurft að koma til stækkunar núna.

Ágætu gestir!
Mönnum er oft tíðrætt um þjóhagslega hagkvæmi og að fjárfestingar þurfi að skila merkjanlegum arði. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að ekkert íþróttahús á landinu skilar meiri þjóhagslegum arði og að starfsemin sem hér fer fram borgar
byggingarkostnað upp á mettíma.

Í endurhæfinu og þjálfun hjá Hl-stöðinni er fólk á öllum aldri og í öllum stéttum þjóðfélagsins. Þátttaka þessa fólks í endurhæfingu hefur það í för með sér að mörg þeirra eru enn að fullu virk á vinnumarkaði. Margir þurfa ekki á dýrri sjúkrahúsvist eða annarri endurhæfingu að halda.

Á vori komandi verður félagið 35 ára en flest ef ekki allt mesta afreksfólk Íslands í íþróttum hefur stigið sín fyrstu skref í íþróttum hjá félaginu og margir hér í þessu húsi. Ég fullyrði að ekkert íþróttafélag á Íslandi  hefur átt þátt í að þjálfa og byggja upp jafn margt afreksfólk í íþróttum.

Um tugur íþróttamanna frá félaginu hefur unnið til um tveggja tuga verðlaunapeninga á Ólympíuleikum auk þess að setja heimsmet og vinna til fjölda verðlauna á Heimsmeistaramótum.

Síðast en ekki síst hefur fjöldi einstaklinga sem byggt hafa upp sitt líkamlega og andlega þrek með æfingum hjá félaginu verið betur færir um að takast á við lífið m.t.t. til fötlunar sinnar, með langskólamenntun og virkri þátttöku í atvinnu- og félagslífi. Þeir hafa  því minna þurft á dýrri endurhæfingu eða sjúkrahúsvist að halda. Auk þess að virk þátttaka þeirra í atvinnulífinu lækkar verulega greiðslur úr almannatryggingarkerfinu.

Vissulega er erfitt að sanna þessar fullyrðingar með mælitækjum, en í 35 ára starfi mínu hjá Tryggingarstofnun ríkisins hef ég glöggt séð hvað þeir einstaklingar sem virkir hafa verið í íþróttum fatlaðra standa sig yfirleitt betur í lífsbaráttunni.

Eins og ég sagði í upphafi vaknaði draumur um íþróttahús fyrir félagið um 1980. Sá draumur varð að veruleika 10 árum síðar. Aftur vaknaði draumur um stækkun um aldamótin. Hann er að rætast núna.

Í raun var síðasti draumurinn stærri og meiri því félagsaðstaðan er fyrir löngu orðin of lítil miðað við starfsemina. Við ákváðum að taka einn áfanga fyrir í einu, en búið er að gera drög að hönnun fyrir Félagsmiðstöð. Við munum því fljótlega banka á dyr og óska eftir stuðningi við að stækka Félagsaðstöðuna.

Ég treysti því að borgarstjórn sem og aðrir sem málið varða sýni þeirri beiðni skilning og velvilja.

Þökk fyrir áheyrnina.

Arnór Pétursson

Nýjustu Fréttir
Getraunanúmer ÍFR
121
Íþróttafélag fatlaðra í Reykjavík © 2015
Powered by MemHT