UM FÉLAGIÐ

Íþróttafélag fatlaðra í Reykjavík var stofnað 30. maí 1974. Félagið var það fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Markmið félagsins er að gera fötluðu fólki kleift að stunda íþróttir til æfingar og keppni. Félagið var einn af stofnaðilum Íþróttasambands fatlaðra árið 1979 og er stærsta aðildarfélag þess. Árið 1992 tók félagið í notkun eigið íþróttahús að Hátúni 14 og fer meginhluti starfseminnar fram þar.

Hér er lagið okkar:

Máttur

SAGA HÚSSINS

Um 1980 hafði starfsemi félagsins vaxið svo fiskur um hrygg að umræður hófust um byggingu eigin íþróttahúss. Ákvörðun um byggingu íþróttahúss var síðan tekin 1982 og 1983 var hafist handa við að taka grunn og steypa sökkla. Þeim framkvæmdum lauk á árinu 1984. Eftir það lágu framkvæmdir alveg niðri vegna fjárskort fram í apríl 1989.
Vegna frábærrar frammistöðu fatlaðra íþróttamanna á Ólympíumóti fatlaðra í Seul 1988 gekkst Rás 2 fyrir fjársöfnun í október 1988 til styrktar byggingu íþróttahússins. Sú söfnun varð til þess að í apríl 1989 var hafist handa við að steypa íþróttahúsið upp.
Í september árið 1990 gekkst Rás 2 svo aftur fyrir söfnun með það að markmiði að hægt yrði að ljúka byggingu hússins þannig að hægt yrði að taka það í notkun á árinu 1991. Jafnframt fyrrgreindum söfnunum lögðu margir aðilar bæði fyrirtæki og einkaaðilar félaginu margvíslegt lið m.a. með fjárstyrkjum afslætti af vörum, vinnu og efni.
Frú Vigdís Finnbogadóttir þáverandi forseti íslands lagði hornstein að íþróttahúsinu 27. september 1990.
Íþróttahúsið var svo formlega tekið í notkun 1. september 1992. Margvísleg íþróttastarfsemi fatlaðra fer fram í húsinu og Endurhæfingarstöð Hjarta og lungnasjúklinga er með alla sína starfsemi þar.
Íþróttahúsið er 1.250 fermetrar aðal íþróttasalur er 18 x 32 metrar, auk þess er minni salur fyrir lyftinga og þrekþjálfun. Félaga álman er með fundarsal fyrir um 80 manns, eldhúsi og herbergi fyrir stjórn og nefndir.
Gólf íþróttasalarins er fyrsta sinnar tegundar á Íslandi við lagningu þess voru lögð sérstök lög sem eiga að draga úr meiðslum við æfingar og keppni.
Íþróttahúsið er teiknað af Teiknistofunni s.f. þeim feðgum Gísla Halldórssyni og Leif Gíslasyni. Allan verkfræðiþátt annaðist Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen h.f. yfirverkfræðingur var Níels Indriðason.
ÍFR er eina félag sinnar tegundar á Norðurlöndum sem ræður yfir eigin íþróttahúsi.

Starfsmenn

Starfsmenn Íþróttafélags fatlaðra í Reykjavík og íþróttahúss fatlaðra.

Sími félagssins: 561-8226
Sími hússins: 561-8225

Netfang
Ingólfur Arnarson / Framkvæmdast. ifr@ifr.is
Heiðar Sigurjónsson
Þröstur Steinþórsson
Hanna Margrét Kristleifsdóttir

OPNUN NÝBYGGINGAR

Þegar draumar verða að veruleika

Byggingarsaga íþróttahúss Íþróttafélags fatlaðra í Reykjavík.
Opnun nýbyggingar Laugardaginn 28. mars 2009 Ræða fomanns bygginganefndar ÍFR

Forseti Íslands Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, Menntamálaráðherra Katrín Jakobsdóttir, Borgarstjórinn í Reykjavík Hanna Birna Kristjánsdóttir. Ágætu gestir.
Íþróttafélag fatlaðra í Reykjavík var stofnað 30. maí 1974 að frumkvæði Íþróttasambands Íslands, Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra og Öryrkjabandalags Íslands. Félagið fékk fyrst aðstöðu til æfinga í Sjálfsbjargarhúsinu, en sú aðstaða var síðan tekin undir sjúkraþjálfun.

Um 1980 hafði starfsemi félagsins vaxið það mikið að æfingar voru vítt og breitt um borgina s.s. í Sjálfsbjargarhúsinu, Íþróttahúsi Hlíðarskóla, Árseli og Baldurshaga á Laugardalsvelli. Aðgengi að mörgum þessara staða var mjög ábótavant fyrir hreyfihamlaða. Hófst þá umræða í stjórn félagsins um hvort ekki væri tímabært að félagið eignaðist eigið íþróttahús. Fólk leyfði sér að dreyma.

Strax var farið að kanna málið með viðræðum við embættismenn hjá Reykjavíkurborg og Menntamálaráðuneytinu. Svör flestra þeirra voru á einn veg þ.e.a.s. að engin þörf væri fyrir slíkt íþróttahús, félagið gæti aldrei staðið undir rekstri þess og að auki gæti félagið aldrei greitt sinn hlut í byggingarkostnaði. Þá voru lög um byggingu íþróttamannvirkja þannig að sveitarfélög og ríki borguðu hvort um sig 40% og íþróttafélögin sjálf 20% af byggingarkostnaði.

Þrátt fyrir þetta byrjaði félagið að leggja allt það fé sem því áskotnaðist og ekki þurfti til rekstrar, í byggingasjóð. Árið 1983 var síðan skipuð byggingarnefnd undir formennsku Sigurðar Magnússonar en auk hans voru í nefndinni Vigfús Gunnarsson og Trausti Sigurlaugsson sem báðir eru látnir. Nefndinni tókst að fá styrk frá Reykjavíkurborg en það fjármagn og byggingasjóðurinn dugði til að ljúka við grunn að íþróttahúsi árið 1985.

Þá stöðvuðust framkvæmdir alveg vegna fjárskorts og margir urðu úrkula vonar um að ekki yrði af frekari framkvæmdum. Svo rammt var það að ýmsir fóru að tala um að best væri að reyna að selja grunninn.

Í lok árs 1986 var svo skipuð ný bygginganefnd. Fengum við til liðs við okkur valinkunna athafnamenn úr Lions- og Kiwanishreyfingunum. Má þar m.a. nefna Svavar Gests, hljómlistamann og tónlistaútgefanda,  Jón Sigurðsson sem kenndur var við Straumnes sem síðar varð formaður félagsins, Ásgeir B. Guðlaugsson, kenndur við Timburverslun Árna Jónssonar sem varð svo fyrsti framkvæmdastjóri íþróttahússins, Samúel Jón Samúelsson endurskoðanda og Geir Björgvinsson bifreiðastjóra. Þeir eru allir látnir. Auk þeirra voru í nefndinni Magnús Sigtryggsson og Pétur Árnason sem eru látnir, einnig Arnór Pétursson sem var formaður, Guðni Þór Arnórsson, Jóhanna Stefánsdóttir og Júlíus Arnarsson.

Í fyrstu mættu nefndin sama viðhorfi og áður um að hvorki væri þörf fyrir íþróttahúsið eða félagið réði ekki við að reka það eða borga sinn hlut.
Þetta breyttist þegar Davíð Oddson þáverandi borgarstjóri og Ólafur Ragnar Grímsson þáverandi fjármálaráðherra samþykktu rök nefndarinnar og sáu að þörfin var ótvíræð.

Á árinu 1987 var gerður samningur við Teiknistofuna sf. undir forystu feðganna Gísla Halldórssonar og Leifs Gíslasonar og Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen (VST) undir forystu Níelsar Indriðasonar um hönnun íþróttahússins. Í framhaldi af því var svo gerður samningur við verktakafyrirtækið Ártak og Sigurð Reynisson, byggingameistara um byggingu hússins. Húsið var svo vígt 27. september 1990 og frú Vigdís Finnbogadóttir þáverandi forseti Íslands lagði hornstein að húsinu.

Um það leyti sem íþróttahúsið var tekið í notkun var gerður samningur við Endurhæfingarstöð Hjarta,- og lungnasjúklinga um samstarf og starfsemi stöðvarinnar í íþróttahúsinu. Það samstarf hefur verið með ágætum allan þennan tíma.

Allar þær mótbárur og hrakspár sem við höfðum átt við að glíma afsönnuðust fljótlega því tveim árum eftir að íþróttahúsið vara tekið í notkun borgaði félagið upp byggingalánið sem það þurfti að taka. Íþróttahúsið hefur aldrei verið rekið með halla eða þurft aðstoð vegna reksturs.

Um aldamótin var ljóst að svo þröngt var orðið um alla starfsemi í íþróttahúsinu að nauðsynlegt væri að stækka það. Sú þörf óx með ári hverju og ljóst varð að aðeins tvennt væri í stöðunni þ.e. að stækka húsið eða segja upp leigusamningi við HL -stöðina og vísa henni þar með út í óvissu með starfsemi sína.

Skipuð var ný byggingarnefnd 2005 í henni eru Arnór Pétursson, Garðar Steingrímsson, Júlíus Arnarsson og Þórður Ólafsson , sem þegar hófst handa við að kanna jarðveg fyrir stuðningi við stækkun. Frá því húsið var byggt hefur lögum verið breytt þannig að nú eru íþróttamannvirki alfarið á vegum sveitarfélaga og því í okkar tilviki hjá Reykjavíkurborg.

Þar sem stækkunin var ekki að öllu leiti vegna þarfa félagsins, því eins og fyrr sagði má segja að þarfir félagsins hefði mátt leysa að mestu með því að segja HL-stöðinni upp leigusamningi, töldu fulltrúar Reykjavíkurborgar það ekki vera í verkahring borgarinnar að standa straum af öllum kostnaði við stækkunina.

Skrifað var undir samning við Reykjavíkurborg 9. júní 2006 um að borgin mundi leggja félaginu til 75 milljónir á þrem árum þ.e.a.s. árunum 2007. 2008 og 2009. Var það áætlaður um helmingur byggingakostnaðar. Félagið þyrfti því að leita til ríkisvaldsins um að koma að málinu vegna eðlis þess og uppruna.

Nú hófst mikil og löng ganga við að kynna málið fyrir ráðherrum félags-, mennta-, og heilbrigðismála því í eðli sínu heyrði málið á einhvern hátt undir öll þessi ráðuneyti. Mér telst til að við höfum rætt við a.m.k. 8 ráðherra á rúmum tveim árum þ.m.t. aðstoðarmann forsætisráðherra. Hægt og bítandi opnuðust augu ráðamanna fyrir mikilvægi framkvæmdarinnar og ekki síst hvað þjóhagslega hagkvæmt væri að styðja stækkunina.

Félagsmálaráðherra samþykkti 2006 að veita 10 milljónir úr framkvæmdasjóði fatlaðra sem kom til útborgunar 2008. Það var svo fjárlaganefnd Alþingis sem á endanum tók af skarið og leysti málið með fjárveitingum.
Félagið fékk í  fjárlögum 2007 10 milljónir, á fjárlögum 2008 20 milljónir og í fjáraukalögum 2008 20 milljónir.

Félagði hefur einnig fengið styrki til tækjakaupa í nýja þreksalinn frá Minningasjóði Margrétar Björgúlfsdóttur 1.000.000,- kr . Bandalag Kvenna í Reykjavík 500.000,- kr. og Pokasjóði 700.000,- kr.

Hönnun viðbyggingarinnar hófst á árinu 2005 af verkfræðistofu Sigurðar Thorodssen (nú Verkís) og Tark teiknistofu h.f. Fljótlega kom svo verkfræðistofan Hönnun (nú Mannvit) að verkinu. r Skrifað var undir samning við SÞ Verktaka 29. febrúar 2008. Byggingameistari er Sigurður Þórðarson.

Nú er verkinu lokið og hefur það gengið vonum framar. Heildarkostnaður liggur ekki endanlega fyrir, en með þeim tækjakaupum sem þurfti að ráðast í, til að stækkað íþróttahúsið gæti sinnt sínu hlutverki að fullu, má ætla að heildarkostnaðurinn verði a.m.k. 140 til 150 milljónir.

Byggingarnefnd kann öllum þeim sem komið hafa að verkinu bestu þakkir fyrir vel unnin störf svo og öllum þeim sem lagt hafa málinu lið á einn eða annan hátt. Sem og þeim sem stutt hafa verkið s.s. með fjárframlögum og öðrum stuðningi.

Fyrstu hugmyndir af byggingu íþróttahússins voru um mun stærra hús en leyfi fékkst til að byggja. Ef þær hugmyndir hefðu verið samþykktar hefði ekki þurft að koma til stækkunar núna.

Ágætu gestir!
Mönnum er oft tíðrætt um þjóhagslega hagkvæmi og að fjárfestingar þurfi að skila merkjanlegum arði. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að ekkert íþróttahús á landinu skilar meiri þjóhagslegum arði og að starfsemin sem hér fer fram borgar
byggingarkostnað upp á mettíma.

Í endurhæfinu og þjálfun hjá Hl-stöðinni er fólk á öllum aldri og í öllum stéttum þjóðfélagsins. Þátttaka þessa fólks í endurhæfingu hefur það í för með sér að mörg þeirra eru enn að fullu virk á vinnumarkaði. Margir þurfa ekki á dýrri sjúkrahúsvist eða annarri endurhæfingu að halda.

Á vori komandi verður félagið 35 ára en flest ef ekki allt mesta afreksfólk Íslands í íþróttum hefur stigið sín fyrstu skref í íþróttum hjá félaginu og margir hér í þessu húsi. Ég fullyrði að ekkert íþróttafélag á Íslandi  hefur átt þátt í að þjálfa og byggja upp jafn margt afreksfólk í íþróttum.

Um tugur íþróttamanna frá félaginu hefur unnið til um tveggja tuga verðlaunapeninga á Ólympíuleikum auk þess að setja heimsmet og vinna til fjölda verðlauna á Heimsmeistaramótum.

Síðast en ekki síst hefur fjöldi einstaklinga sem byggt hafa upp sitt líkamlega og andlega þrek með æfingum hjá félaginu verið betur færir um að takast á við lífið m.t.t. til fötlunar sinnar, með langskólamenntun og virkri þátttöku í atvinnu- og félagslífi. Þeir hafa  því minna þurft á dýrri endurhæfingu eða sjúkrahúsvist að halda. Auk þess að virk þátttaka þeirra í atvinnulífinu lækkar verulega greiðslur úr almannatryggingarkerfinu.

Vissulega er erfitt að sanna þessar fullyrðingar með mælitækjum, en í 35 ára starfi mínu hjá Tryggingarstofnun ríkisins hef ég glöggt séð hvað þeir einstaklingar sem virkir hafa verið í íþróttum fatlaðra standa sig yfirleitt betur í lífsbaráttunni.

Eins og ég sagði í upphafi vaknaði draumur um íþróttahús fyrir félagið um 1980. Sá draumur varð að veruleika 10 árum síðar. Aftur vaknaði draumur um stækkun um aldamótin. Hann er að rætast núna.

Í raun var síðasti draumurinn stærri og meiri því félagsaðstaðan er fyrir löngu orðin of lítil miðað við starfsemina. Við ákváðum að taka einn áfanga fyrir í einu, en búið er að gera drög að hönnun fyrir Félagsmiðstöð. Við munum því fljótlega banka á dyr og óska eftir stuðningi við að stækka Félagsaðstöðuna.

Ég treysti því að borgarstjórn sem og aðrir sem málið varða sýni þeirri beiðni skilning og velvilja.

Þökk fyrir áheyrnina.

Arnór Pétursson

LÖG FÉLAGSINS

Lög Íþróttafélags fatlaðra í Reykjavík.

   1. Grein – Heiti og heimili Félagið heitir Íþróttafélag fatlaðra í Reykjavík, skammstafað ÍFR. Heimili þess og varnar­þing er í Reykjavík. Félagið sem heild á aðild að Íþróttasambandi Íslands, Íþrótta­banda­lagi Reykjavíkur, og Íþróttasambandi fatlaðra og starfar í samræmi við lög þessara aðila.
   2. Grein – Markmið félagsins Markmið félagsins er að efla íþróttaiðkanir fatlaðra með æfingum og keppni og annast rekstur íþróttamannvirkja þess.
   3. Grein – Félagar Félagsmenn geta orðið allir þeir sem áhuga hafa á íþróttum fatlaðra.
   4. Grein – Styrktarfélagar Styrktarfélagar geta orðið einstaklingar eða lögaðilar, sem styrkja félagið með fjárfram­lagi, annað hvort árlega eða í eitt skipti fyrir öll í samræmi við samþykkt aðalfundar.
   5. Grein – Heiðursfélagar Heiðursfélagi getur sá orðið sem hefur unnið félaginu til heilla um árabil. Til kjörs heiðursfélaga þarf samhljóða atkvæði allra stjórnarmanna. Mest mega 10 menn bera þann titil í senn.
   6. Grein – Stjórn félagsins Stjórn félagsins skipa fimm menn:Formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi.Til embættis formanns og varaformanns skal kosið sérstaklega til tveggja ára í senn, formaður annað árið, en varaformaður hitt árið til þess að auka samskipti stjórnar, nefndarmanna og hins almenna félagsmanns.Aðrir stjórnarmenn skulu einnig kosnir til tveggja ára í senn, þannig að tveir eru kosnir annað árið, en einn hitt.Kjósa skal í stjórnina þrjá varamenn og skulu þeir ætíð boðaðir á stjórnafundi.Varamenn hafa málfrelsi og tillögurétt og ennfremur atkvæðisrétt sé stjórnin ekki fullskipuð. Ræður atkvæðamagn eða röð framboðs í hvaða röð varamenn öðlast atkvæðisrétt. Kjörtímabil varamanna er eitt ár.Stjórnin skiptir með sér verkum öðrum en embætti formanns og varaformanns strax að loknum aðalfundi.

   1) Stjórnin heldur félagaskrá er innihaldi upplýsingar um nafn félaga, kennitölu, síma­númer (heima og á vinnustað), íþróttagrein auk upplýsinga um hvort viðkomandi er fatlaður eða ófatlaður. Sérstök skrá skal haldin um styrktar og heiðursfélaga og heiðursviðurkenningaþega félagsin
   2) Stjórnin skal boða til félagsfundar ef þörf krefur. Þó eigi sjaldnar en einu sinni milli aðalfunda. Stjórninni er skylt að boða til félagsfundar ef fleiri en 25 félagar krefjast þess enda tilkynni þeir um leið fundarefni sem þeir óska að rætt verði.
   3) Stjórnin ber ábyrgð á fjárreiðum félagsins. Hún hefur umráðarétt yfir öllum eignum félagsins og ræður starfsemi þess í samráði við stjórnir einstakra nefnda. Gjaldkeri er prókúruhafi en formaður í forföllum hans. Stjórn félagsins getur þó ef nauðsyn krefur veitt gjaldkera Húsnefndar takmarkað prókúruumboð vegna reksturs íþróttamannvirkja félagsins á vegum nefndarinnar. Sjóði félagsins skal ávaxta á tryggan og hagkvæman hátt. Meiri háttar fjárhagslegar skuldbindingar þar á meðal kaup og sala fasteigna skal háð samþykki aðalfundar.
   4) Stjórn félagsins ræður starfsmenn félagsins og gerir við þá skriflega samninga. Ráðning starfsmanna við íþróttamannvirki skal gerð að fenginni tillögu húsnefndar.
   5) Stjórnin skal gefa út málgagn svo oft sem þörf er á. Í málgagni séu tilkynningar til félags­manna varðandi starf félagsins svo og annað það sem fram þarf að koma.
   6) Skylt er að halda stjórnarfundi svo oft sem þurfa þykir en þó eigi sjaldnar en einu sinni í mánuði. Gjörðir og samþykktir stjórnar skal færa til bókar.
   7) Stjórnarfundir eru löglegir ef minnst fimm fullgildir stjórnarmenn eru mættir, þar með taldir annað hvort formaður eða varaformaður.
   8) Stjórnin skal halda fundi með fastanefndum félagsins svo oft sem þurfa þykir.

   8. Grein – Nefndir félagsins 

   Á vegum félagsins skulu hið minnsta starfa eftirfarandi fastanefndir:

  1. Félagsmála og skemmtinefnd. Stjórn kýs þrjá menn í nefndina.Nefndin skiptir sjálf með sér verkum.Hlutverk hennar er að efla almennt félagsstarf svo og að halda almenna skemmtun fyrir félagsmenn minnst einu sinni á ári.Nefndin skili starfsyfirliti í lok starfsárs.
  2. Fjáröflunarnefnd. Stjórn kýs fimm menn í fjáröflunarnefnd til eins árs í senn. Nefndin skiptir sjálf með sér verkum.Hlutverk nefndarinnar er að hafa frumkvæðið að nýjum fjáröflunarleiðum og fylgjast með því að fjárölfunarleiðir einstakra nefnda í nafni félagsins rekist ekki á.Fjáröflunarnefnd skili starfsyfirliti í lok starfsárs.
  3. Íþróttanefndir:Hver íþróttagrein skal kjósa þrjá menn í íþróttanefnd viðkomandi greinar til eins árs í senn.Nefndin skiptir sjálf með sér verkum, þó þannig að þjálfari launaður af ÍFR gegni ekki formennsku í nefndinni. Íþróttanefndir skulu annast daglegan rekstur viðkomandi íþróttagreinar svo sem innheimtu æfingagjalda, annast fjáröflun fyrir greinina í samráði við stjórn eða fjáröflunarnefnd. Ennfremur skal íþróttanefnd vinna að eflingu íþrótta­greinar­innar og vinna að ráðningu þjálfara í samráði við félagsstjórn.Íþróttanefndir skili starfsyfirliti í lok starfsárs.
  4. Húsnefnd. Stjórn kýs fimm menn í húsnefnd til eins árs í senn og þrjá menn til vara.Skulu varamenn ætíð boðaðir á nefndarfundi.Húsnefnd annast rekstur íþróttamannvirkja félagsins í samráði við félagsstjórn og skal hún setja nefndinni sérstakt erindisbréf.Fjárhagur húsnefndar heyrir beint undir stjórn félagsins, en skal í bókhaldi aðskilin frá rekstri félagsstjórnar sem sérstök fjárhagsdeild innan félagsins.Húsnefnd skal gera grein fyrir starfsemi sinni í lok starfsárs.
  5. Stjórn félagsins skal í byrjun árs kjósa 3 manna uppstillingarnefnd. Uppstillingarnefnd skal gera tillögu um framboð til stjórnar. Tillögum skal skila tímanlega fyrir aðalfund og kynna í aðalfundarboði.

9. Grein  – Aðalfundur félagsins

Aðalfundur hefur æðsta vald í öllum málefnum félagsins. Aðalfund skal halda í maí ár hvert og til hans
boðað bréflega og í fjölmiðlum með að minnsta kosti viku fyrirvara.
Aðalfundur er löglegur hafi löglega verið til hans boðað. Formaður félagsins setur aðalfund eða varaformaður í forföllum hans.                                             Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir.

   1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
   2. Skýrsla stjórnar um starfsemi og framkvæmdir félagsins á liðnu starfsári.
   3. Reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar.
   4. Lagabreytingar skv. tillögum sem borist hafa stjórn fyrir 15. apríl og auglýstar hafa verið í fundarboði. Þeirra skal getið í fundarboði og efni þeirra auglýst.
   5. Kosning í stjórn félagsins samanber 6. grein þessara laga.
   6. Kosning tveggja endurskoðenda reikninga og tveggja til vara.
   7. Ákvörðun félagsgjalds.
   8. Önnur mál.

Í kosningum ræður einfaldur meirihluti, nema um lagabreytingar, þá þarf samþykki 2/3 hluta viðstaddra atkvæðisbærra fundarmanna.                                   Heimilt er að óska eftir að atkvæðagreiðslur séu skriflegar og skal orðið við því ef meiri­hluti
atkvæðisbærra fundarmanna samþykkir það.

                                10. Grein – Réttindi og skyldur félaga

   1. Félagar skulu fara að lögum félagsins, lögum Íþróttasambands Íslands, Íþrótta­banda­lags Reykjavíkur, og Íþróttasambands fatlaðra.
   2. Skuldugum félaga er óheimilt að taka þátt í ákvörðunum á aðalfundi félagsins.
   3. Óski félagsmaður að segja sig úr félaginu skal hann gera það skriflega.
   4. Stjórn félagsins er heimilt í samráði við þjálfara að meina félaga aðgang að æfingum og keppni á vegum eða fyrir hönd félgsins um ákveðin tíma. Skilyrði er að um sé að ræða síendurtekin brot gegn móta- og keppendareglum eða gegn dóms og refsiákvæðum Íþrótta­sambands Íslands. Þá geta forsendur slíkrar ákvörðunar einnig verið þær að viðkomandi félagi sýni á æfingum af sér hegðun sem jafna má við brot gegn 14. grein móta og keppn­is­reglna Íþróttasambands Íslands. Ætíð skal þó í slíkum tilfellum gefa félagmanni tækifæri til að skýra mál sitt, áður en til aðgerða er gripið.                                                                               Hafi endurtekið þurft að grípa til refsiaðgerða og félagsmaður er jafnframt vís að því að vinna gegn hagsmunum félagsins er heimilt með samþykki stjórnarfundar að víkja honum úr félaginu.

11. Grein – Slit félagsins

Til að slíta félaginu þarf samþykki 4/5 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi. Ef slíkt er samþykkt
skal boða annan félagsfund innan tveggja mánaða, sem eingöngu skal fjalla um slitin. Séu slit félagsins einnig samþykkt á þeim fundi með 4/5 hluta greiddra atkvæða er félaginu endanlega slitið.
Eignir félagsins skal þá varðveita hjá Íþróttasambandi fatlaðra, þar til annað félag með sama  tilgangi er stofnað á félagssvæðinu, en þá skulu þær renna til þess. Ef slíkt félag er ekki stofnað innan fimm ára frá slitum félagsins renna framangreindar eignir til Íþróttasambands fatlaðra.

12. Grein

Með samþykki þessara laga falla úr gildi eldri lög félagsins.

13. Grein

Lög þessi öðlast gildi þegar í stað.

STJÓRN OG NEFNDIR

Stjórn ÍFR 2023-2024

Formaður: Garðar Steingrímsson
Varaform: Björk Birgisdóttir
Óskar Elvar Guðjónsson
Eiríkur Ólafsson
Björn Valdimarsson

Varastjórn:
Anna Jónsson Þorsteinsdóttir
Jón Þorgeir Guðbjörnsson
Kristín Rós Hlynsdóttir

Húsnefnd 2023-2024

Formaður: Óskar Elvar Guðjónsson
Guðmundur Pétursson
Ísleifur Bergsteinsson
Reynir Kristófersson
Þröstur Steinþórsson
Heiðar Sigurjónsson

Varastjórn

Garðar Hallgrímsson
Jón M. Árnason
Jón Þorgeir Guðbjörnsson

Fjáröflunarnefnd 2023-2024

Eiríkur Ólafsson
Þórður Ólafsson
Óskar Elvar Guðjónsson

Getraunanefnd 2023-2024

Formaður: Guðmundur Pétursson
Garðar Hallgrímsson
Eiríkur Ólafsson
Björk Birgisdóttir
Þorgeir Ingólfsson
Starfsmaður: Jón Örn Ingólfsson

Félagsmála-og skemmtinefnd 2018-2019

Formaður: Björn Valdimarsson

JAFNRÉTTISSTEFNA

Inngangur
Einstaklingum líður betur í umhverfi þar sem jafnrétti ríkir. Þar sem kynjamisrétti fær að skjóta rótum eru oft ríkjandi aðrir fordómar sem t.d. tengjast uppruna eða aldri. Hugmyndir um það hvað sé við hæfi að stelpur geri annars vegar og strákar hins vegar eru hamlandi. Þar sem raunverulegt jafnrétti ríkir fá allir einstaklingar að njóta sín og blómstra.
Íþróttafélagið stuðlar að jöfnum tækifærum sinna félagsmanna og mismunar ekki vegna kynferðis, uppruna, kynhneigðar, kynvitundar, aldurs, fötlunar, þjóðernis, trúarbragða, skoðana, litarháttar eða annarrar stöðu. Íþróttafélagið leggur áherslu á gagnkvæma virðingu í öllu starfi. Niðurlægjandi framkoma svo sem einelti, ofbeldi, kynferðisleg áreitni, illt umtal og ósæmilegar vígsluathafnir er ekki liðin innan félagsins.
Reykjavíkurborg leggur áherslu á, í mannréttindastefnu sinni, að allt uppeldis- og tómstundastarf, menntun og fræðsla skuli hafa jafna stöðu kynjanna að leiðarljósi. Styrkja skuli jákvæð samskipti og gagnkvæma virðingu kynjanna í öllu starfi með börnum og unglingum og þau hvött til að rækta hæfileika sína og persónuþroska án hamlandi áhrifa hefðbundinna kynjaímynda.
Í 23. grein laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10 frá 2008 kemur fram að kynjasamþættingar skuli gætt við alla stefnumótun þar á meðal í íþrótta- og tómstundastarfi.
Reykjavíkurborg hefur sett inn í þjónustusamninga við íþróttafélög að þau skuli hafa virka jafnréttisstefnu og gæta þess í öllu starfi að taka tillit til beggja kynja.
Íþróttafélagið vinnur jafnréttisstefnu og fylgir henni eftir samanber þjónustusamning við Reykjavíkurborg og ÍBR. Jafnréttisstefnan nær til iðkenda, þjálfara, stjórna og starfsfólks. Stefnan gildir í allri starfsemi félagsins. Stefnan er endurskoðuð og lagfærð er þurfa þykir í kjölfar skila á greinargerð um framkvæmd hennar. ÍBR kallar eftir jafnréttisstefnu og framkvæmd hennar frá íþróttafélaginu jafnhliða skilum ársreikninga. ÍBR mun veita ráðgjöf og stuðning varðandi erfið mál m.a. einelti og kynferðislega áreitni.

1 Iðkendur
Íþróttir skipa stóran sess í uppvexti margra barna. Íþróttir stuðla að sterkri sjálfsmynd einstaklingsins, heilbrigðum lífsstíl og almennri vellíðan. Í íþróttum setja iðkendur sér markmið og fylgja þeim eftir með góðri skipulagningu og leiðsögn. Með íþróttaþjálfun byggjum við upp öfluga einstaklinga sem fara af stað út í lífið með gott veganesti sem stuðlar að hreysti og heilbrigði.
Tímar
ÍFR úthlutar jafn mörgum tímum  til æfinga til beggja kynja sem stunda æfingar innan sömu greinar og eru á sama aldri.
Félagið úthlutar tíma í samræmi við aldur. Þess er gætt að bæði kyn njóti þess að vera á „jafngóðum“ tíma dagsins.
Mæling
Framkvæmdastjóri félagsins gerir úttekt á tímatöflum í upphafi hverrar annar.
Ábyrgð
Stjórn ÍFR ber ábyrgð á að úttektin sé framkvæmd.
Aðstaða
Bæði kynin njóta sömu eða sambærilegrar aðstöðu og aðbúnaðar við æfingar.
Mæling
Framkvæmdastjóri félagsins gerir úttekt á aðstöðu og aðbúnaði í upphafi hverrar annar.
Ábyrgð
Stjórn ÍFR  ber ábyrgð á að úttektin sé framkvæmd.
Fjármagn 
Samræmi sé í fjárveitingum innan félagsins til íþróttagreina eftir kynjum. Málefnaleg rök skulu vera fyrir frávikum og skulu þau heyra til undantekninga.
Mæling
Framkvæmdastjóri félagsins ber saman fjárveitingar til greina og niður á kyn. Upplýsingar eru teknar úr bókhaldi.
Ábyrgð
Stjórn ÍFR ber ábyrgð á að samanburðurinn sé framkvæmdur.
Umfjöllun
Þess er gætt að umfjöllun um bæði kynin og íþróttagreinar sé sem jöfnust á vefsíðum félagsins og í öllu efni sem félagið lætur frá sér fara t.d. útgáfu og fréttatilkynningum. Á þetta bæði við um texta og myndefni.
Mæling
Framkvæmdastjóri félagsins gerir úttekt á öllu útgefnu efni út frá kyni, íþróttagreinum og aldri. Umfjöllun á vefsíðum skal greind með sama hætti þrisvar sinnum á ári og nær úttektin yfir eina viku í hvert sinn.
Ábyrgð
Stjórn ÍFR ber ábyrgð á að úttektin sé framkvæmd.
Fyrirmyndir
Fyrirmyndir eru kynntar á ígrundaðan hátt og þess gætt að þær séu af báðum kynjum og endurspegli þær áherslur sem eru hjá félaginu.
Mæling
Framkvæmdastjóri félagsins gerir úttekt einu sinni á ári. Hann athugar hverjar  áherslur félagsins eru og hvernig fyrirmyndirnar hafi verið kynntar.
Ábyrgð
Stjórn ÍFR ber ábyrgð á að úttektin sé framkvæmd.
Vinna gegn staðalímyndum
Félagið vinnur markvisst gegn staðalímyndum með því að leitast við að jafna kynjahlutföll meðal iðkenda hverrar íþróttagreinar fyrir sig. Á þetta við jafnt í starfi sem og allri umfjöllun um starfið.
Mæling
Framkvæmdastjóri félagsins gerir stöðumat og vinnur í kjölfarið tillögur að úrbótum ef þurfa þykir.
Ábyrgð
Stjórn ÍFR ber ábyrgð á að stöðumatið sé framkvæmt.
Verðlaun
Verðlaun til beggja kynja og innan allra greina eru sambærileg. Félagið upplýsir kostunaraðila og aðra samstarfsaðila um  þá stefnu félagsins að jafnræðis skuli gætt milli kynja og greina í verðlaunum.
Mæling
Framkvæmdastjóri félagsins gerir úttekt einu sinni á ári á formlegum verðlaunaafhendingum félagsins.
Ábyrgð
Stjórn ÍFR  ber ábyrgð á að úttektin sé framkvæmd.
Laun eða hlunnindi iðkenda
Kynin njóti sömu launa og/eða hlunninda fyrir sömu eða sambærileg störf hjá félaginu.
Mæling
Framkvæmdastjóri félagsins gerir jafnréttisúttekt á launum/hlunnindum úr bókhaldi einu sinni á ári.
Ábyrgð
Stjórn ÍFR ber ábyrgð á að úttektin sé framkvæmd.

SIÐAREGLUR

Siðareglur

Hlutverk siðareglna (code of ethics) er að veita þeim sem koma að íþróttum almennar leiðbeiningar og vera þeim hvatning. Þær eru hluti af þeim anda sem á að vera ríkjandi í félaginu og þurfa að njóta almenns stuðnings meðal félagsmanna. Þær eru ekki tæmandi, heldur leiðbeinandi og hvetjandi. Aðhaldið felst í almennu viðhorfi til boðskapar reglnanna. Þær þarf að kynna öllum hlutaðeigandi.
Staða siðareglna er mismunandi, allt frá því að vera leiðbeinandi yfir í það að hafa refsiákvæði af ýmsum gerðum. Í tilfelli íþróttafélags er ekki þörf á að hafa refsiákvæði þar sem þau er að finna í keppnisreglum einstakra íþróttagreina.

Foreldri/forráðamaður, hafðu ávallt hugfast að:
1.     Barnið þitt er í íþróttum vegna eigin ánægju en ekki til að gleðja þig.
2.     Hvetja barnið þitt til þátttöku í íþróttum, ekki þvinga það.
3.     Hvetja barnið þitt til að fara eftir og virða reglur íþróttanna og að leysa deilur án fjandskapar eða ofbeldis.
4.     Styðja og hvetja öll börn og ungmenni – ekki bara þín eigin.
5.     Vera jákvæður, bæði þegar vel gengur og þegar illa gengur.
6.     Gera aldrei grín að barni eða hrópa að því ef það gerir mistök.
7.     Börn læra mest af því að framkvæma. Lærðu að meta góða frammistöðu allra barna í hópnum.
8.     Læra að meta þátttöku sjálfboðaliða hjá félaginu því án þeirra hefði barn þitt ekki möguleika á að stunda æfingar og keppni með félaginu.
9.     Virða  rétt hvers barns, óháð kyni, kynstofni eða trúarbrögðum.

Iðkandi (yngri) – Þú ættir að:
1.     Gera alltaf þitt besta.
2.     Virða alltaf reglur og venjur varðandi heiðarleika (Fair Play) í íþróttum.
3.     Taka þátt í íþróttum á eigin forsendum en ekki vegna þess að foreldrar þínir eða þjálfari vilja það.
4.     Sýna öllum iðkendum virðingu, jafnt samherjum sem mótherjum.
5.     Þræta ekki eða deila við dómarann.
6.     Sýna öðrum virðingu og vera heiðarlegur og opinn gagnvart þjálfara og forystufólki félagsins sem ber ábyrgð á þér við æfingar og keppni.
7.     Forðast neikvætt tal eða niðurlægjandi köll um samherja, mótherja, dómara, þjálfara eða starfsmenn félagsins.
8.     Koma fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig.

Iðkandi (eldri) – Þú ættir að:
1.     Gera alltaf þitt besta.
2.     Sýna ávallt öðrum virðingu, jafnt í meðbyr sem mótbyr.
3.     Virða  alltaf reglur og venjur varðandi heiðarleika (Fair play) í íþróttum.
4.     Hafa heilbrigði alltaf að leiðarljósi og forðast að taka áhættu varðandi heilsu þína
5.     Virða alltaf ákvarðanir dómara og annara starfsmanna leiksins.
6.     Bera virðingu fyrir hæfileikum og getu annarra  óháð kyni, kynþætti, stjórnmálaskoðunum, trúarbrögðum og kynhneigð.
7.     Forðast neikvæð ummæli eða skammir.
8.     Vera  heiðarlegur og opinn í samvinnu við þjálfara og aðra sem styðja þig.
9.     Taka sjálfur höfuðábyrgð á framförum þínum og þroska.
10.   Vera ávallt til fyrirmyndar varðandi framkomu, jafnt utan vallar sem innan, og hafa hugfast að þú ert fyrirmynd yngri iðkenda.
11.   Samþykkja aldrei eða sýna ógnandi eða ofbeldisfulla tilburði.
12.   Forðast náin samskipti við þjálfara þinn.
13.   Neyta aldrei ólöglegra lyfja til að bæta árangur þinn.

Þjálfari:
1.     Meðhöndlaðu alla iðkendur á einstaklingsgrunni og á þeirra eigin forsendum.
2.     Styrktu jákvæða hegðun og framkomu.
3.     Sjáðu til þess að þjálfun og keppni sé við hæfi iðkenda með tilliti til aldurs, reynslu og hæfileika.
4.     Haltu á lofti heiðarleika (Fair Play) innan íþróttarinnar.
5.     Viðurkenndu og sýndu virðingu þeim ákvörðunum sem dómarar taka.
6.     Fáðu iðkendur til að vera með í ákvörðunum sem tengjast þeim og kenndu þeim að bera ábyrgð á eigin hegðun og framförum í íþróttinni.
7.     Vertu réttlátur, umhyggjusamur og heiðarlegur gagnvart iðkendum þínum.
8.     Viðhafðu jákvæða gagnrýni og forðastu neikvæða gagnrýni.
9.     Settu ávallt á oddinn heilsu og heilbrigði iðkenda þinna og varastu að setja þá í aðstöðu sem ógnað gæti heilbrigði þeirra.
10.   Sýndu athygli og umhyggju þeim iðkendum sem orðið hafa fyrir meiðslum.
11.   Leitaðu samstarfs við aðra þjálfara og sérfræðinga þegar þess þarf.
12.   Viðurkenndu rétt iðkandans til þess að leita ráða frá öðrum þjálfurum.
13.   Samþykktu aldrei ógnandi eða ofbeldisfulla tilburði.
14.   Beittu (iðkanda) aldrei kynferðislegu, líkamlegu eða andlegu áreiti.
15.   Taktu aldrei að þér akstur iðkenda, hvorki á leiki né æfingar, nema með skriflegu leyfi foreldra
16.   Sinntu iðkendum á æfingum en þess utan skaltu halda þig í faglegri fjarlægð. Forðastu samskipti gegnum síma og Internetið nema til boðunar æfinga og                  upplýsingagjafar sem ávallt eiga að fara í gegnum umsjónarmann.
17.   Vertu meðvitaður um hlutverk þitt sem fyrirmynd, bæði utan vallar og innan.
18.   Talaðu alltaf gegn notkun ólöglegra lyfja.
19.   Talaðu ávallt gegn neyslu áfengis og tóbaks.
20.   Komdu eins fram við alla iðkendur, óháð kyni, kynþætti, stjórnmálaskoðunum, trúarbrögðum og kynhneigð.
21.   Notfærðu þér aldrei aðstöðu þína sem þjálfari til að uppfylla eigin áhuga á kostnað iðkandans.
22.   Hafðu ávallt í huga að þú ert að byggja upp fólk, bæði líkamlega og andlega.
23.   Komdu þér aldrei í þá aðstöðu að þú sért einn með iðkanda.
24.   Forðastu náið samband við iðkanda, fyrir utan æfingar- og keppnistíma.

Stjórnarmaður/starfsmaður:
1.     Stattu vörð um anda og gildi félagsins og sjáðu um að hvorttveggja lifi áfram meðal félagsmanna
2.     Komdu fram við alla félagsmenn sem jafningja, óháð kyni, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, litarhætti og kynhneigð.
3.     Hafðu lýðræðisleg vinnubrögð í heiðri.
4.     Haltu félagsmönnum vel upplýstum og gerðu félagsmenn að þátttakendum í ákvarðanatöku eins og hægt er.
5.     Vertu ávallt til fyrirmyndar varðandi hegðun og framkomu, bæði innan félags og utan.
6.     Taktu alvarlega þá ábyrgð sem þú hefur gagnvart félaginu og iðkendum.
7.     Hafðu ávallt í huga að í félaginu er verið að byggja upp fólk.
8.     Rektu félagið ávallt eftir löglegum og ábatasömum reikningsaðferðum.
9.     Notfærðu aldrei stöðu þína hjá félaginu til eigin framdráttar á kostnað félagsins.

JAFNRÉTTISSTEFNA

Inngangur
Einstaklingum líður betur í umhverfi þar sem jafnrétti ríkir. Þar sem kynjamisrétti fær að skjóta rótum eru oft ríkjandi aðrir fordómar sem t.d. tengjast uppruna eða aldri. Hugmyndir um það hvað sé við hæfi að stelpur geri annars vegar og strákar hins vegar eru hamlandi. Þar sem raunverulegt jafnrétti ríkir fá allir einstaklingar að njóta sín og blómstra.
Íþróttafélagið stuðlar að jöfnum tækifærum sinna félagsmanna og mismunar ekki vegna kynferðis, uppruna, kynhneigðar, kynvitundar, aldurs, fötlunar, þjóðernis, trúarbragða, skoðana, litarháttar eða annarrar stöðu. Íþróttafélagið leggur áherslu á gagnkvæma virðingu í öllu starfi. Niðurlægjandi framkoma svo sem einelti, ofbeldi, kynferðisleg áreitni, illt umtal og ósæmilegar vígsluathafnir er ekki liðin innan félagsins.
Reykjavíkurborg leggur áherslu á, í mannréttindastefnu sinni, að allt uppeldis- og tómstundastarf, menntun og fræðsla skuli hafa jafna stöðu kynjanna að leiðarljósi. Styrkja skuli jákvæð samskipti og gagnkvæma virðingu kynjanna í öllu starfi með börnum og unglingum og þau hvött til að rækta hæfileika sína og persónuþroska án hamlandi áhrifa hefðbundinna kynjaímynda.
Í 23. grein laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10 frá 2008 kemur fram að kynjasamþættingar skuli gætt við alla stefnumótun þar á meðal í íþrótta- og tómstundastarfi.
Reykjavíkurborg hefur sett inn í þjónustusamninga við íþróttafélög að þau skuli hafa virka jafnréttisstefnu og gæta þess í öllu starfi að taka tillit til beggja kynja.
Íþróttafélagið vinnur jafnréttisstefnu og fylgir henni eftir samanber þjónustusamning við Reykjavíkurborg og ÍBR. Jafnréttisstefnan nær til iðkenda, þjálfara, stjórna og starfsfólks. Stefnan gildir í allri starfsemi félagsins. Stefnan er endurskoðuð og lagfærð er þurfa þykir í kjölfar skila á greinargerð um framkvæmd hennar. ÍBR kallar eftir jafnréttisstefnu og framkvæmd hennar frá íþróttafélaginu jafnhliða skilum ársreikninga. ÍBR mun veita ráðgjöf og stuðning varðandi erfið mál m.a. einelti og kynferðislega áreitni.

1 Iðkendur
Íþróttir skipa stóran sess í uppvexti margra barna. Íþróttir stuðla að sterkri sjálfsmynd einstaklingsins, heilbrigðum lífsstíl og almennri vellíðan. Í íþróttum setja iðkendur sér markmið og fylgja þeim eftir með góðri skipulagningu og leiðsögn. Með íþróttaþjálfun byggjum við upp öfluga einstaklinga sem fara af stað út í lífið með gott veganesti sem stuðlar að hreysti og heilbrigði.
Tímar
ÍFR úthlutar jafn mörgum tímum  til æfinga til beggja kynja sem stunda æfingar innan sömu greinar og eru á sama aldri.
Félagið úthlutar tíma í samræmi við aldur. Þess er gætt að bæði kyn njóti þess að vera á „jafngóðum“ tíma dagsins.
Mæling
Framkvæmdastjóri félagsins gerir úttekt á tímatöflum í upphafi hverrar annar.
Ábyrgð
Stjórn ÍFR ber ábyrgð á að úttektin sé framkvæmd.
Aðstaða
Bæði kynin njóta sömu eða sambærilegrar aðstöðu og aðbúnaðar við æfingar.
Mæling
Framkvæmdastjóri félagsins gerir úttekt á aðstöðu og aðbúnaði í upphafi hverrar annar.
Ábyrgð
Stjórn ÍFR  ber ábyrgð á að úttektin sé framkvæmd.
Fjármagn 
Samræmi sé í fjárveitingum innan félagsins til íþróttagreina eftir kynjum. Málefnaleg rök skulu vera fyrir frávikum og skulu þau heyra til undantekninga.
Mæling
Framkvæmdastjóri félagsins ber saman fjárveitingar til greina og niður á kyn. Upplýsingar eru teknar úr bókhaldi.
Ábyrgð
Stjórn ÍFR ber ábyrgð á að samanburðurinn sé framkvæmdur.
Umfjöllun
Þess er gætt að umfjöllun um bæði kynin og íþróttagreinar sé sem jöfnust á vefsíðum félagsins og í öllu efni sem félagið lætur frá sér fara t.d. útgáfu og fréttatilkynningum. Á þetta bæði við um texta og myndefni.
Mæling
Framkvæmdastjóri félagsins gerir úttekt á öllu útgefnu efni út frá kyni, íþróttagreinum og aldri. Umfjöllun á vefsíðum skal greind með sama hætti þrisvar sinnum á ári og nær úttektin yfir eina viku í hvert sinn.
Ábyrgð
Stjórn ÍFR ber ábyrgð á að úttektin sé framkvæmd.
Fyrirmyndir
Fyrirmyndir eru kynntar á ígrundaðan hátt og þess gætt að þær séu af báðum kynjum og endurspegli þær áherslur sem eru hjá félaginu.
Mæling
Framkvæmdastjóri félagsins gerir úttekt einu sinni á ári. Hann athugar hverjar  áherslur félagsins eru og hvernig fyrirmyndirnar hafi verið kynntar.
Ábyrgð
Stjórn ÍFR ber ábyrgð á að úttektin sé framkvæmd.
Vinna gegn staðalímyndum
Félagið vinnur markvisst gegn staðalímyndum með því að leitast við að jafna kynjahlutföll meðal iðkenda hverrar íþróttagreinar fyrir sig. Á þetta við jafnt í starfi sem og allri umfjöllun um starfið.
Mæling
Framkvæmdastjóri félagsins gerir stöðumat og vinnur í kjölfarið tillögur að úrbótum ef þurfa þykir.
Ábyrgð
Stjórn ÍFR ber ábyrgð á að stöðumatið sé framkvæmt.
Verðlaun
Verðlaun til beggja kynja og innan allra greina eru sambærileg. Félagið upplýsir kostunaraðila og aðra samstarfsaðila um  þá stefnu félagsins að jafnræðis skuli gætt milli kynja og greina í verðlaunum.
Mæling
Framkvæmdastjóri félagsins gerir úttekt einu sinni á ári á formlegum verðlaunaafhendingum félagsins.
Ábyrgð
Stjórn ÍFR  ber ábyrgð á að úttektin sé framkvæmd.
Laun eða hlunnindi iðkenda
Kynin njóti sömu launa og/eða hlunninda fyrir sömu eða sambærileg störf hjá félaginu.
Mæling
Framkvæmdastjóri félagsins gerir jafnréttisúttekt á launum/hlunnindum úr bókhaldi einu sinni á ári.
Ábyrgð
Stjórn ÍFR ber ábyrgð á að úttektin sé framkvæmd.

MYNDASAFN